Ég eignaðist fyrst myndavél haustið 1981, á menntaskólaárunum, keypti mér þá fyrir nánast alla sumarhýruna Minolta XG vél með „kit linsu“ og náði einhvern veginn að festa líka kaup á Cosina linsu sem var að mig minnir 70-300 mm. Sjá Minolta XG
Þessi myndavél var með tækniundri sem var að hægt var að sjá ljósopsstillinguna þegar horft var í gegnum sjónopið (viewfinder) því það var spegilsystem niður á linsuna sem endurvarpaði ljósopstölunni upp í sjónopið. Ég eignaðist meira að segja flass við vélina. Þeirra tíma fokus var að láta 2 myndhluta renna saman í einn ef svo má að orði komast í miðju linsunnar. Því miður eru flestar þessara mynda týndar og tröllum gefnar. Á þessum árum var eitt að geta eignast tækin og annað að geta keypt filmur og borgað framköllun.
Ég lagðist svo í ljósmyndadvala frá ca 1983 til 2013, átti að vísu þeirra tíma „point and shoot“ vélar frá Kodak, m.a. eina sem er með allra flottustu línum sem í myndavélum hafa sést hafa og fór vel í vasa. Þegar stafræna tæknin var að halda innreið sína í ljósmyndun eignaðist ég „avant garde“ vél frá Kodak, heil 4MP af pixlum á örflögunni og ég efast um að minniskortið hafi náð 1 gb, þetta var held ég árið 2004 en ég notaði þessa vél lítið og hafði þá ekki hugmynd um eftirvinnslu ljósmynda í tölvum.
Áhuginn vaknaði aftur snemma árs 2013 þegar ég sá vél sem systir mín hafði keypt handa dóttur sinni fyrir gönguferð á Suðurskautið. Síðan þá hef ég verið illa haldin af ljósmyndadellu og þar með tækjadellu og síðasta birtingarmyndin er ljósmyndaprentun, en ég hef samt sem áður ekki enn sett neina mynd upp á vegg hjá mér. Ég hef ekkert sérstakt svið innan ljósmyndunar sem aðaláhugamál, en hef reynt mig við allt frá fuglaljósmyndun og yfir í macro ljósmyndun.
Mínir bestu dagar eru á heiðum uppi röltandi á eftir hundunum mínum í góðu veðri með myndavélina meðferðis. Ég man enn eftir hláturskastinu sem bróðir minn fékk, þegar ég sagði upphátt og meinti það raunverulega, að „nú þyrfti ég enga aðra linsu framar“ þegar ég var að prófa 400 mm f5.6 linsuna í fyrsta sinn, þetta var líklega árið 2014, og ég er farin að skilja af hverju hann hló svona að mér þá