Ljósmyndaferðir

Færeyjar 2019

Hin fimmtán fræknu ……..

…. á ferð í Færeyjum.

Eygló Aradóttir ritar:

Það var ekki vorlegt, veðurfarið á Íslandi, þegar hin fimmtán fræknu fetuðu sig út í Airbus þotu

Atlantic Airways á Reykjavíkurflugvelli snemma morguns. Fólk kom fannhvítt, raunverulega fannhvítt, inn í þotuna, því það snjóaði þennan maímorgun.

Það voru allir glaðvakandi því norðanáttin var svo stíf, en líka af spenningi fyrir ferðinni sem var að hefjast. Fimmtán félagsmenn Bliks ljósmyndaklúbbs, vopnuð græjum af ýmsum stærðum og gerðum, ætluðu að eyða 4 dögum í Færeyjum, við að ljósmynda landslag, byggingar og mannlíf þessara 18 eyja.

Flugið gekk vel fyrir sig, nema að sumir höfðu á orði að flugmaðurinn hefði stigið heldur hressilega á bremsurnar þegar lent var í Vogum, en honum til varnar má líklega telja að flugbrautin í Færeyjum er ekki mjög löng. Færeyingar hleyptu öllum inn í landið og við tók ökuferð til Þórshafnar hvar við áttum pantað gistirými á Hotel Hafnia, sem eins og nafnið gefur til kynna, er ekki nema nokkur skref frá höfninni, en reyndar er flest í Þórhöfn bara nokkur skref í burtu. Við skráðum okkur inn á fínasta hótel Þórshafnar og fengum ágætis herbergi með minibar og alles og góðu útsýni þar að auki.

Þar sem Færeyjar teljast ekki sjálfstætt ríki, þó þær séu það í raun nema að danir lána þeim utanríkisþjónustu og dómsvald, þá getur Ísland ekki verið með sendiráð í Færeyjum, dönum myndi svelgjast á bjórnum sínum vegna þess, því rekur Ísland konsulat, ræðismannsskrifstofu í Þórshöfn, og einn úr hópnum, fréttahaukurinn Magnús Hlynur, hafði reddað okkur kaffi og meððí á föstudeginum. Þar fengum við beint í æð niðurstöður utanríkisþjónustunnar um eðli færeyísks samfélags fyrr og nú. Eftir þann fyrirlestur fóru ýmsir að lesa fasteignaauglýsingar í Færeyjum enda ku drjúpa smjér af þeim stráum sem fyrirfinnast í Færeyjum, og það er sko ekki írskt smjér. Við komum færandi hendi til ræðismannsskrifstofunnar, ljósmynd sem tekin var af Þorsteini Egilsyni félaga í Blik, til þess að skenkja þeim. Kærar þakkir til þeirra sem gáfu okkur myndina.

Baldvin Þór Harðarson tók við myndagjöf Bliks úr höndum Sólveigar formanns

Mannlífið og myndefnin biðu utandyra og fólk

fylkti liði um götur og stíga og húsasund það sem eftir lifði dagsbirtu föstudagsins. Sólin var í felum bak við ský en það var þurrt og nokkrum gráðum hlýrra en á Íslandi, en strekkingur svo það reyndi nokkuð á hristivarnir véla og linsa.

Á laugardeginum voru veðurguðirnir í fremur vondu skapi og helltu úrhellisrigningu úr skálum reiði sinnar yfir okkur og færeyinga og aðra ferðamenn, svo að minna varð af ljósmyndun. Hluti hópsins ákvað að bjóða veðri og vindum byrginn og þramma í SMS – MOLLIÐ – í Þórshöfn á laugardeginum og týndist þar um tíma, en komu svo í leitirnar aftur og þá var ákveðið að leita uppi Norðurlandahúsið, nokkrum flíkum ríkari og nokkrum dönskum eða færeyískum krónum fátækari.

Norðurlandahúsið átti að vera örskammt frá mollinu, sem það náttúrulega er, enda stutt í allt í Þórshöfn, en þegar vindurinn og regnið lemur á fólki þá vilja vegalengdir lengjast úr hófi. Það var göngumóður og holdvotur hópur sem vatt sér inn í Norðurlandahúsið eftir að hafa horft á eftir strætó (sem nota bene er gjaldfrjáls innan Þórshafnar) aka framúr sér og átta sig á því að þessi bláa rúta sem stóð við stoppistöðina hjá SMS var víst strætó. Strætóar eru sumsé ekki gulir allsstaðar þó þeir séu það á Íslandi.

Mosavaxinn veggur

Í Norðurlandahúsinu stóð yfir mót norrænna kóra og fulltrúi Íslands var Kvennakór Suðurnesja. Kórinn, ásamt nk. öðrum kórum, af báðum kynjum, sungu eins og þeir ættu lífið af leysa um … já um gott veður! Á dönsku.

Kóramót

Þegar við vorum orðin svona nokk þurr og orðin mett af veitingunum í Norðurlandahúsinu, ja þá var úrkomuákvefðin (jú, þetta er orð) orðin enn meiri en þegar við komum í Norðurlandahúsið. Helmingur hópsins ákvað að reyna við strætó og biðum við í nk. mínútur og stukkum upp í fyrstu bláu rútuna sem stoppaði hjá okkur…. Og fengum út úr því ágætis útsýnisferð um efri byggðir Þórshafnar og norðurhverfin líka og vorum svona aðeins farin að hugleiða hvurt við myndum enda norður í Klakksvík, þegar ein athugul úr hópnum áttaði sig á því að við höfðum líklega í tvigang í ferðinni verið komin í návígi við miðbæinn og höskuðum okkur því út. Hinn hluti hópsins náði sér í hýruvogn og komst klakklaust á hótelið án þess að leiða hugann að Klakksvík.

Eins og fyrr sagði, fögnuðu Þórshafnarbúar fiskideginum sínum þennan laugardag, við höfnina var komið fyrir ýmsum básum og kerjum með fiski og fiskiafurðum og uppboðum á fiskikippum. Fólk gekk þar á milli og smakkaði og smjattaði og lét almennt vel af.

Fiskidagurinn í Thorshavn

Sunnudeginum var eytt í rútuferð um Streymoy endilanga með viðkomu á Eysturoy. Veðurguðirnir höfðu tekið gleði sína á ný og það var sólskin og hlýindi lengi dags. Það er nánast skylda að koma við í Kirkjubøur sunnarlega á Streymoy, en þar var á öldum áður menningarleg og kirkjuleg miðstöð Færeyja. Þar eru byggingar sem eru öngvu líkar í ótrúlega góðu ástandi enn þann dag í dag, bæði kirkjur og íbúðarhús.

Múrin – Kirkjubær

Þar hittum við fyrir á hlaðinu prest sem var að koma í messugjörð, sem var að hefjast rétt í þá mund er við vorum að tínast í rútuna til að halda áfram. Okkur tókst að tefja svo fyrir prestinum að hann varð að lokum að hlaupa við fót til að ná í messuna sína. Hann klæddi sig í hempuna sjálfur úti á hlaði hjálparlaust (og það var sko ekki vegna þess að ekki væri nægilegt rými í kirkjunni til þess) og ræddi við okkur um ýmis málefni, m.a. sköpunarsöguna, þeir fiska ekki sem ekki róa, líka prestar og aldrei of seint að reyna að krækja í nokkrar sálir. Hann þekkti vel til geistlegra á Íslandi og gaman var að spjalla við hann.

Presturinn og fararstjórinn Allan Ragnarsson

Frá Kirkjubæ ókum við í norðurátt, skoðuðum hafnarstæði sprengt inn í klettaborgir, þorp hangandi í snarbröttum grasbrekkum og allt á malbikuðum vegum. Við fórum um fjallvegi, göng og allt þar á milli. Færeyísk þorp eru litrik, jafnvel þó mörg húsanna séu svört, vel hirt, oft á tíðum hallandi, með vel hlöðnum mosagrónum steinveggjum og tún á stöllum. Vegir eru allir bundnir slitlagi sem ekki var útslitið, allir 460 kilómetrarnir af vegakerfi landsins.

Funningur

Við komum um miðjan dag í Tjörnuvik – Þernuvík, norðarlega á Streymoy, litla vík sen er opin fyrir norðanáttinni. Þar vorum við fávís að íhuga af hverju girðingarnar væru svona háar og stutt á milli stauranna og kindur svo hér og hvar inn á milli, færeyingar hlytu að eiga ofgnótt girðingarstaura fyrst þeir gætu spanderað þeim svona. Færeyískt sauðfé er jú háfætt en ekki svo að girðingar þyrftu að vera svona háar. En þá kvað einn okkur upp úr með það að þetta væru heisjur, heyþurrkunarútbúnaður þeirra færeyinga, en ekki til þess að halda sauðfé á sinum stað.

Þernuvík

Þorpið er lítið en afskaplega vinalegt, flest húsanna vel við aldur. Stór kirkja með sæbörðum steinum í garðveggnum utan um. Þarna eru nk. svört hús í eldri kantinum í þyrpingu og svo nokkur yngri. Í kjallara eins þeirra sem til yngri húsanna myndi teljast, var rekin höndlun með sitt lítið af hverju, hornum af hrútum og lömbum ásamt prjónlesi og bókum. Við keyptum upp lagerinn af myndabók um Færeyjar (sem er svolítið skondið fyrst við vorum þarna að taka myndir) og þarna var eintakið heilum 9 dönskum og færeyískum krónum ódýrara en í stóru bókabúðinni í Þórshöfn. Reifarakaup.

Þegar við komum út úr búðinni beið okkar færeyingur, minnir að hann hafi heitið Hans, smiður, fæddur í Tjörnuvik en hafði farið brott um nk. skeið en komið aftur. Hann hafði m.a. verið á Íslandi og talaði íslensku ágætlega. Hann bauð okkur í vöfflur og kaffi á slikk inn í bæ til sín og við þáðum það með þökkum. Konan hans er pensioneruð ljósmóðir sem ætlaði þó að leysa af í Hammerfest eina viku næsta sumar. Þau bjuggu í húsi sem var að stofni til frá 18. öld en eitt húsanna þarna var með grindverk sem var talið vera frá 14. öld. Það er ekki verið að henda timbri þarna í Færeyjum.

Tjörnuvík hús frá 14 og 18. Öld

Eftir kaffið og vöfflurnar stigum við færeyískan dans með þessum manni í einu húsanna, á fermetrafjölda sem myndi seint teljast stórt dansgólf. Sá færeyíski kenndi okkur sporin og taldi vani dansarinn í hópnum að þetta væri eins og í tangó, tvö skref til vinstri og eitt til hægri. Þó ég hafi nú náð bronsmerki Danskennarasambands Íslands einhvern tímann seinni hluta síðustu aldar, þá átti ég fullt í fangi með að stíga ekki á tær annara en ég kenni um lítlum fermetrafjölda dansgóflsins, það var tæpast pláss fyrir svona marga fætur. En sá tangó sem ég lærði var ekki í sama takti og færeyískur vikivaki.

Færeyískur dans

Frá Tjörnuvik fórum við í ýmsa króka og kima, sáum eina sérlegustu höfn Atlantshafsins í Gjógv, sáum The Rolling Stones í aksjón, Slættaratind í næstum því návígi. Það var ánægður hópur sem hélt heim á leið er leið á eftirmiðdaginn og þá var komin rigning aftur.

Mánudagurinn tók svo á móti okkur með glimrandi veðri, fótasjoppu bláum himni og 12 gráðu hita. Hin fimmtán fræknu eyddu síðustu klukkutundum ferðarinnarí nágrenni hafnar og hótels þar til að hýrvognarnir tóku okkur til flugvallarins aftur. Ég held að enginn hafi farið stúrinn frá Færeyjum og allir verið afskaplega ánægðir með ferðina.

Gjógv

Fimmtán fræknu _ Blikfélagar í Færeyjaferð.

Færeyjarfarar eru farnir að grufla í næstu ferð og hefur Grænland verið nefnt í þeim efnum.