Eiríkur St. Eiríksson

Ég er fæddur í Reykjavík 29. september 1956 en foreldrar mínir eru úr Skagafirði og Arnarfirði og ólust þar upp. Ég hef starfað sem blaðamaður í rúmlega 40 ár, lengst sem lausamaður (free-lance) og frá 2005 hjá sjáfum mér. Ég er með próf frá Blaðamannaskólanum í Osló og Leiðsöguskóla Íslands (MK).

Ljósmyndun hefur fylgt mér sem blaðamanni og fyrsta myndin mín birtist á forsíðu Tímans 1980 að mig minnir. Töluverð áhersla var lögð á ljósmyndun, framköllun og kópíeringu í blaðamannaskólanum og naut ég góðs af því þegar ég réð mig til starfa hjá Degi á Akureyri í ársbyrjun 1983. Ég starfaði síðar hjá Fiskifréttum í 15 ár og lengst af þeim tíma tók ég allar myndir, innlendis sem erlendis, sem birtust með fréttum mínum og greinum. Myndavélar hafa sömuleiðis fylgt með í ferðum mínum um landið sem stangaveiðimaður um áratuga skeið og áhugamaður um skotveiði. Ég var svo lánsamur að geta sameinað starfið og áhugamálið við ritun og útgáfu Stangaveiðihandbókanna sem eru fjórar talsins og einhverjar ljósmyndir á ég í þeim bókum. Að auki hef ég skrifað þrjár aðrar bækur og gefið út eina til viðbótar.

Árið 2003 tók ég fyrst að mér leiðsögn fyrir veiðimenn í Laxá í Kjós og frá árinu 2015 hef ég verið leiðsögumaður erlendra ferðamanna í ferðum um landið.

Myndavélar: Canon EOS 7D Mark II, Canon EOS M3, Fuji X-A2, Canon AE-1, Canon AE-1 Program og GoPro 2.

Linsur: Canon, Fujinor, Rokinon og Tamron.

Allar myndir eru teknar í RAW en endurvinnsla fer fram í myndvinnsluforritinu Lightroom. Hluta myndanna má sjá á Facebooksíðunni IcelandAmazing